Bandalag íslenskra tónleikahaldara (BÍT) eru hagsmunasamtök fyrirtækja og einstaklinga sem sem starfa við tónleikahald á Íslandi. Félagið var formlega stofnað í september 2020, sem viðbrögð við miklum breytingum á tónleikamarkaði í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Ljóst var að upplýsingaflæði og samvinna innan geirans myndi leiða til hagsbóta fyrir hagsmunaaðila tónleikahalds og tryggja meiri stöðugleika til lengri tíma.
Tónleikahald hefur á skömmum tíma orðið mikilvægasta stoð tónlistargeirans. Þegar plötusala byrjaði að lækka verulega í byrjun aldarinnar hefur lifandi flutningur á tónlist verið ein helsta tekjulind tónlistarmanna, með mikilvæg afleiðuáhrif fyrir tengda aðila. Þar má nefna tæknimenn, tækjaleigur og bókunarskrifstofur. Það er þannig öllum til hagsbóta að hér á landi sé starfandi og blómstrandi tónleikahald.